fbpx

Aðrar rannsóknir

Talheyrnarpróf (Speech Audiometry)

Í talheyrnarprófi er talmál notað til að meta getu viðkomandi til að greina og skilja talmál við ákveðinn tónstyrk.  Talheyrnarpróf er mikilvægur þáttur í heyrnargreiningu.  Í flestum tilfellum er talgreiningarpróf (Word Recognition Threshold) notað og í sumum tilfellum er einnig framkvæmt talþröskuldspróf (Speech Recognition Threshold).  Í báðum tilfellum hlustar viðkomandi á orð í gegnum heyrnartól og beðinn um að endurtaka orðin. Talgreiningarpróf mælir prósentu orða sem viðkomandi endurtekur rétt við ákveðinn hljóðstyrk.  Talþröskuldsprófið byggir á því að kanna við hvaða hljóðstyrk viðkomandi heyrir og endurtekur rétt, 50% af tveggja atvæðisorðum.

Þrýstingsmæling (Tympanometry)

Þrýstingsmæling er framkvæmd til að meta mótstöðu og þrýsting í miðeyra.  Mælingin getur t.d. gefið vísbendingar um hvort óeðlileg mótstaða, undirþrýstingur eða vökvi sé í miðeyra.   Mælingin er framkvæmd ef skoðun eða niðurstaða heyrnarmælingar bendir til vandamála í miðeyra og tekur örstutta stund.

Stapedius reflexmæling (Acoustic Reflex Threshold)

Stapedius vöðvinn er pínulítill vöðvi í miðeyranu sem dregst saman við hljóðáreiti. Í þessari mælingu er þrýstingsmælitæki sett í annað eyrað og heyrnartól yfir hitt eyrað. Tónn er sendur inn í eyrað, ýmist með þrýstingsmælitækinu eða heyrnartólinu og viðbragð vöðvans mælt þeim megin sem þrýstingsmælirinn er staðsettur. Prófið getur t.d. gefið vísbendingar um hvort viðkomandi sé með ístaðshersli (otosclerosis), leiðniskerðingu vegna annarra miðeyrnavandamála eða truflun á taugaboði frá heyrnartaug (Vestibulocochlear Nerve VIII) eða andlitstaug (Facial Nerve VII). Mælingin getur tekið nokkrar mínútur.

REM mæling (Real Ear Measurement)

REM mæling er notuð til að mæla nákvæmlega og stilla hljóðmögnun frá heyrnartæki inni í eyrnagöngunum. Örþunn hljóðslanga er sett inn í eyrað til að mæla náttúrulegan hljómburð eyrans. Heyrnartækið er síðan sett í eyrað og óskyljanleg talblanda (sex ólík tungumál) er spiluð í þrem ólíkum styrkleikum. Mögnun heyrnartækjanna er síðan stillt nákvæmlega eftir niðurstöðu úr REM mælingunni. Heilarframkvæmd REM getur tekið allt að 30 mín. Nánari upplýsingar um REM AutoFIT má finna á heimasíðu Oticon.