fbpx

Algengi, alvarleiki og afleiðingar

Algengi heyrnarskerðingar

Heyrnarskerðing er vaxandi vandamál en talið er að um 1 af hverjum 5 einstaklingum í heiminum séu með skerta heyrn og flestir þeirra eða um 62% eru 50 ára eða eldri1.

Áreiðanlegar tölur um fjölda heyrnarskertra á Íslandi liggja ekki fyrir2 en ef við notum gögn úr nýlegri rannsókn um algengi heyrnarskerðingar og yfirfærum tölur frá Evrópu, þá má gera ráð fyrir að um 14,3% landsmanna eða um 55.000 manns* séu með væga til mjög alvarlega heyrnarskerðingu1. Út frá sömu gögnum má gera ráð fyrir að um 12.000 einstaklingar séu með miðlungs til mikla heyrnarskerðingu og um 800 manns séu með alvarlega eða mjög alvarlega heyrnarskerðingu1.

*Miðað við fjölda landsmanna 2024 skv. Hagstofu Íslands
Heimildir:
1 GBD 2019 Hearing Loss Collaborators. Hearing loss prevalence and years lived with disability, 1990-2019: Findings from the Global Burden of Disease study 2019. Lancet. 2021. 2 HTÍ heimasíða, 2025: Heyrnarskerðing. 3 WHO, 2021. Highlighting priorities for ear and hearing care – World report on hearing. World Health Organization: Geneva; 2021.

Flokkun heyrnarskerðingar eftir alvarleika

Heyrnarskerðing hefur í gegnum árin verið flokkuð eftir alvarleika skerðingar, mælt í hljóðstyrk (dB) á fjórum tíðnisviðum (500 Hz, 1000 Hz, 2000 Hz og 4000 Hz). WHO setti nýlega fram nýtt flokkunarkerfi fyrir heyrnarskerðingu og er henni nú skipt upp í 6 flokka eftir alvarleika skerðingar. Nýja flokkunarkerfið nær einnig til einhliða heyrnarskerðingar, þ.e. skerðing sem mælist eingöngu á öðru eyra. Hér fyrir neðan má sjá nýja flokkunarkerfið.

Væg: 20-34 dB
Miðlungs: 35-49 dB
Mikil: 50-64 dB
Alvarleg: 65-79 dB
Mjög alvarleg: 80-94 dB
Heyrnarleysi: >95 dB
Einhliða skerðing: <20 dB á betra eyranu og ≥35 dB á lakara eyranu

Heimildir
Humes, L.E., 2019. The World Health Organization’s hearing-impairment grading system: an evaluation for unaided communication in age-related hearing loss. Int J Audiol. Jan; 58(1):12-20. WHO, 2021. World Report on Hearing. World Health Organization.Geneva.

Afleiðingar heyrnarskerðingar

Segja má að heyrnarskerðing sé falin fötlun, sem verður sýnileg í samskiptum við aðra. Árið 2019 var aldurstengd heyrnarskerðing þriðja stærsta orsök fötlunar sem fólk lifir með (Years Lived with Disability) og leiðandi ástæða þess að einstaklingar eldri en 70 ára lifa með fötlun 1) .

Rannsóknir hafa sýnt að heyrnarskerðing getur skert lífsgæði og haft margvísleg áhrif á einstaklinga og fjölskyldur þeirra 2) . Áhrif ómeðhöndlaðar heyrnarskerðingar geta verið minni félagsleg þátttaka og skert starfsgeta sem getur leitt til snemmbúinna starfsloka, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið 3) . Án tímanlegra inngripa getur heyrnarskerðing leitt til félagslegrar einangrunar, þunglyndis, aukið hættu á byltum hjá öldruðum og heilabilun 4,5,6)

Heimildir:
1) GBD 2019 Hearing Loss Collaboratiors. Hearing loss prevalence and years lived with disability, 1990- 2019: Findings from the global burden of disease study 2019.  2) WHO, 2021. Highlighting priorities for ear and hearing care – World report on hearing.  3) Huddle M.G. et al., 2017. The Economic Impact of Adult Hearing Loss: A Systematic Review.  4) Lawrence B.J. et al., 2020. Hearing Loss and Depression in Older Adults: A Systematic Review and Meta-analysis.  5) Jiam N.T. et al., 2016. Hearing loss and falls: A systematic review and meta-analysis.  6) Livingston, G. et al., 2020. Dementia prevention, intervention, and care: 2020 report of the Lancet Commission.