fbpx

Heyrn

Betri heyrn ─ bætt lífsgæði!

Að bæta heyrnina snýst um svo miklu meira en tíðnisvið og desibel ─ mikilvægast er að bæta getu þína til að taka fullan þátt í lífinu með fólkinu sem þér þykir vænt um. Heyrn skerðist oft á löngum tíma og oft eru það ættingjar eða vinir sem taka fyrst eftir breytingu á heyrn.

Hægfara breyting á heyrn

Alveg eins og sjónin þá breytist heyrn okkar með hækkandi aldri og er í raun eðlilegur hluti af því að eldast. Heyrnin byrjar oft að skerðast um fertugt en talið er að um þriðjungur 65 ára og eldri sé með skerta heyrn. Heyrnarskerðing gerir það að verkum að erfiðara verður að greina ákveðin málhljóð eins og samhljóða (t.d. f, s og t) en þessi hljóð liggja á hátíðnisviði og renna auðveldlega saman við háværari lágtíðni sérhjóð (t.d. a, o og u). Þetta veldur því að einstaklingar með skerta heyrn kvarta gjarnan undan því að þeir heyri ekki nógu skýrt, sér í lagi í fjölmenni og klið.